Íslenska líftæknifyrirtækið Algalíf stefnir á framleiðslu náttúrlegra plöntuvarnarefna úr örþörungum í samstarfi við franska líftæknifyrirtækið ImmunRise Biocontrol til notkunar í landbúnaði. Áætluð alþjóðleg markaðsstærð er yfir 1. 000 milljarðar króna. Þegar hefur fengist rúmlega hundrað milljóna styrkur frá Evrópusambandinu til verkefnisins.
1.000 milljarða alþjóðlegur markaður.
Varnarefni eru notuð í landbúnaði víða um heim og áætlað er að markaður með þau á heimsvísu velti sem nemur nærri eitt þúsund milljörðum íslenskra króna. Þessi markaður fer ört stækkandi og áætlað er að hann muni tvöfaldast á næstu fimm árum. Stór hluti þeirra efna sem nú eru notuð er kemískur en mikil eftirspurn er eftir náttúrulegum staðgönguefnum. Evrópusambandið styður slíka umbreytingu og stefnir á helmingun á notkun kemískra varnarefna fyrir árið 2030.
Þróunarstyrkur frá Evrópusambandinu.
Algalíf og ImmunRise hafa þegar fengið þróunarstyrk úr Eureka Eurostars áætlun Evrópusambandsins sem nemur rúmlega 100 milljónum íslenskra króna, til að þróa ný og umhverfisvæn plöntuvarnarefni úr örþörungum. Frumtilraunir síðustu missera lofa góðu og mögulegt að innan fárra ára rísi ný örþörungaverksmiðja á Íslandi sem hluti þessa verkefnis.
Eitt öflugasta örþörungafyrirtæki Evrópu.
Algalíf er nú þegar leiðandi fyrirtæki í framleiðslu örþörunga á heimsvísu en það er stærsti framleiðandi Evrópu á fæðubótaefninu astaxanthín. Unnið er að lokauppsetningu nýrrar hátækni örþörungaverksmiðju fyrirtækisins á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þegar hún hefur náð fullum afköstum á næsta ári mun framleiðslan verða rúmlega þreföld miðað við það sem nú er. Þar með verður Algalíf stærsti framleiðandi í heimi á náttúrulegu astaxanthíni í samtals 13.300 m² húsnæði.
Forstjóri Algalífs er Orri Björnsson og starfsmenn eru um 70.
Franskur frumkvöðull í rannsóknum.
ImmunRise Biocontrol er franskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun lífvirkra varnarefna úr þörungum. Fyrstu afurðir þess eru umhverfisvæn sveppavarnarefni fyrir landbúnað sem nú eru í skráningar- og vottunarferli hjá viðeigandi yfirvöldum í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.